top of page
Starfamessa 2019 – lokaskýrsla

Framgangur verkefnis

Miðvikudaginn 10. apríl var haldin í þriðja skiptið Starfamessa á Selfossi, áhersluverkefni 
sóknaráætlunar Suðurlands á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) í samstarfi við Atorku
– samtök atvinnurekenda á Suðurlandi og Fjölbrautaskóla Suðurlands.


Markmið verkefnisins er að kynna fyrir 9. og 10. bekkjum grunnskólanna og 1. og 2. bekk 
framhaldsskólanna á Suðurlandi nám og störf  í verk-, tækni- og iðngreinum sem í boði eru á svæðinu 
til þess að auka áhuga og þátttöku nemenda í þeim greinum.

Við upphaf verkefnisins var ákveðið að komin væri tími til þess að setja upp heimasíðu til þess að 
miðla upplýsingum til nýrra kynnenda og gesta, sem og til þess að halda utanum framgang, myndir og 
annað sem gott er að fletta upp.

Líkt og áður var öllum fyrrgreindum nemendum á Suðurlandi boðið til messunnar og var þátttaka 
þeirra svipuð og 2017 auk þess sem 10. bekkur Vestmannaeyja bættist við. Hins vegar urðu nemendur 
Menntaskólans við Laugarvatn að sitja hjá að þessu sinni sökum mikilla anna rétt fyrir páska.

Við mótun verkefnisins var ákveðið að komin væri tími til þess að meta árangur þess með könnunum 
sem lagðar voru fyrir strax eftir messuna. Um tvo hópa er að ræða, annarsvegar kynnendur þ.e. 
fyrirtæki og framhaldsskóla sem kynntu störf og nám, og hinsvegar aðstandendur grunnskólanna þ.e. 
það starfsfólk sem kom að messunni, bæði náms- og starfsráðgjafar sem og þeir kennarar sem höfðu 
umsjón með nemendum. Ágæt svörun fékkst meðal kynnendanna en síðri meðal grunnskólanna og fylgir 
könnunin skýrslunni. Í könnuninni var gert ráð fyrir opnum svörum um bæði kosti og galla messunnar 
og voru niðurstöður hennar einstaklega jákvæðar og gefa verkefninu mikinn meðbyr inn í framtíðina. 
Ýmsar ábendingar komu þó fram sem vert er að skoða fyrir næstu messu, ef af verður, líkt og gert 
var við undirbúning þessarar messu með punktum frá messunni 2017.

Sé horft á messudaginn sjálfan var það einróma upplifun aðstandenda messunnar að bæði kynnendur og 
gestir hafi líkt og áður haft gagn og gaman að viðburðinum og rímar það við niðurstöður 
könnunarinnar.

Helstu punktar frá Starfamessunni 2017 og úrvinnsla þeirra fyrir Starfamessuna 2019

Við uppgjör messunnar 2017 komu fram nokkrir punktar sem horft var til við undirbúning messunnar 
2019
    Nauðsynlegt er að halda svona messu aftur – það tekur nokkur skipti ef safna á gögnum svo 
hægt sé að mæla árangur. Svona verkefni ættu alltaf að vera hugsuð til lengri tíma

o  Ákveðið var að spyrja sérstaklega að því í könnuninni hvort kynnendum og aðstandendum skólanna 
fyndist ástæða til þess að halda áfram með messurnar.


•     Enn má bæta í forvinnu skóla og fyrirtækja og efla það samtal enn frekar
o  Farið var í það að hitta náms- og starfsráðgjafana sérstaklega þar sem verkefni á borð við 
stafakynningar eru á þeirra könnu. Sá hópur tilnefndi tvo tengiliði við verkefnastjóra sem áttu í 
framhaldi mikið og gott samstarf.


•     Vinna enn áhugaverðari nemendaverkefni á staðnum – helst í samstarfi við fyrirtækin

o  Ákveðið var að fara í samstarf við íslenska netleikjafyrirtækið Locatify um að þróa rafrænan 
netleik fyrir nemendur sem hafði það markmið að leiða þá í gegnum messuna. Atorka veitti svo 
stigahæstu liðunum vegleg verðlaun.


•     Finna leið til þess að hafa alla kynnendur undir sama þaki og helst þannig að 
starfsgreinarnar geti kynnt sig í sínu „náttúrulega umhverfi“ innan verkgreinastofa í Hamri

o  Messan var að þessu sinni eingöngu haldin í Hamri og gafst það fyrirkomulag einstaklega vel að 
flestra mati.


•     Skoða hvort „skóla slottin“ mættu styttast – úr 2klst í 1,5klst
o  Ákveðið var að halda „slottunum“ áfram í 2klst enda nóg að skoða.


•     Skoða hvort aðrar dagsetningar henti betur – annar tími ársins. Þetta þarf að skoðast 
samhliða skóladagatölum grunnskólanna og Íslandsmeistarakeppni iðngreinanna ásamt örðum þáttum

o  Ákveðið var að hafa messuna mánuði seinna en Íslandsmeistarakeppni iðngreina í Reykjavík og var 
það til heilla. Verkefnastjóri leggur það hinsvegar til að ef messan verði haldin aftur verði hún 
færð til þannig að hún stangist ekki á við áðurnefnda Íslandmeistarakeppni og yrði því haldin næst 
árið 2022. Sú tillaga byggir meðal annars á niðurstöðum úr áðurnefndri könnun þar sem spurt var út 
í þennan þátt.


•     Nýta samfélagsmiðla ef messan verður opin almenningi á sama tíma og nemendum er boðið
o  Ákveðið var að bjóða foreldrum og almenningi að koma á messuna milli kl.14 og 16 á messudegi og 
var það gert með bæði  net- og prentauglýsingum. Það bar takmarkaðan árangur og því þarf að hugsa 
þann þátt aftur sérstaklega þar sem niðurstöður svara um þennan þátt í könnuninni sýndu að um 50% 
fannst það skipta miklu eða mjög miklu að fá foreldra og almenning á messuna.


Samstarf við kynnendur

Á messunni 2019 voru rúmlega 50 kynnendur sem kynntu náms- og starfsleiðir í iðn-, verk- og 
tæknigreinum en hugmyndafræðin sem unnið er með gengur út á að nemendurnir hitti bæði forsvarmenn 
starfsgreinanna sem og aðstandendur námsins á bak við þær greinar. Þannig öðlast þeir innsýn í 
ferlið  allt frá námi og inn í fyrirtækin sem þar sem störfin eru unnin.
Auk þeirra starfsgreina og fyrirtækja sem kynntu sig á messunni var mjög góð þátttaka þeirra skóla 
sem kenna greinarnar svo sem Tækniskólinn, Keilir, Garðyrkjudeild LBHÍ, Hótel og matvælaskóli MK 
auk Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Eins og áður hefur komið fram var ákveðið að hafa Starfamessuna eingöngu í nýju verknámshúsi 
Hamars. Var það gert vegna ákalls kynnenda frá síðustu messu um að geta verið í „sínu rétta 
umhverfi“ þar sem því væri við komið, þ.e. að rafmagnsfyrirtækin stilltu sér upp inni í því rými 
sem rafmagnsfræðin er kennd, byggingarfyrirtækin á smíðaverkstæðinu og svo framvegis. Það er mat 
skipuleggjenda að sú ákvörðun hafi verið rétt og nutu kynnendur sín upp til hópa vel í því 
umhverfi.

Árangursmælikvarðar meðal kynnenda

Líkt og getið er hér að framan þá fengu kynnendur senda til sín könnun um upplifun sína á messunni 
þar sem þeir höfðu jafnframt gott tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri. Könnunin 
sýndi það skýrt að kynnendum finnst messan skipta máli þar sem 68% svarenda telja að hún hafi leitt 
til aukinnar aðsóknar í iðn-, verk- og tækninám og 93% sögðust myndu taka þátt aftur ef hún yrði 
haldin í fjórða skipti (sjá tölur í könnun).

Jafnframt var ákveðið að bjóða kynnendum á málþing um stöðu og framtíð iðn,- verk- og tæknigreina 
þar sem fjallað var um hvar við erum og hvert við stefnum. Þar höfðu kynnendur tækifæri til þess að

viðra sínar skoðanir og eiga samtal um stöðu og framtíð greinanna. Málþingið var vel sótt en því 
verða gerð sérstök skil í lokaskýrslu þess verkefnis. Við lok málþingsins var haldið formlegt
„Starfamessu slútt“ sem markaði lok verkefnisins sem hér um ræðir.

Samstarf við grunn- og framhaldsskóla

Líkt og síðast var mikil áhersla lögð á að eiga í miklu og góðu samstarfi við skólana og þá 
sérstaklega grunnskólana og var gott að geta byggt á því starfi sem þegar hafði verið unnið. Til 
þess að auka samstarfið enn frekar var ákveðið að boða til fundar með öllum náms- og 
starfsráðgjöfunum á Suðurlandi til þess að fá þá til liðs við okkur sem tengiliði við grunnskólana 
enda oft erfitt að ná eyrum kennara og skólastjórnenda í erilsömu amstri dagsins. Sú ráðstöfun 
gafst vel og hún, auk áframhaldandi tengingar við kennara og stjórnendur, gerði það að verkum að 
fleiri fundu til eignarhalds á verkefninu. Þessi tenging varð jafnframt til þess að náms- og 
starfsráðgjafarnir unnu markvisst með starfamessuna í starfakynningum innan sinna skóla.

Á fyrri starfamessum hafa nemendur farið í gegnum rýmið með ratleik sem leiðir þá á milli 
starfsgreina og námsleiða. Þessir ratleikir hafa hingað til verið í formi spurninga á blaði sem 
nemendur hafa fengið hjá kennurunum sínum fyrir komuna á messuna og skilað þeim jafnframt til 
þeirra aftur. Spurningarnar hafa þó alfarið verið samdar af aðstandendum messunnar með upplýsingum 
frá kynnendum. Að þessu sinni var ákveðið að „uppfæra“ ratleikinn og var fyrirtækið Locatify 
www.locatify.com fengið til samstarfs en það fyrirtæki sérhæfir sig í rafrænum ratleikjum. Nemendur 
fengu því ratleik til niðurhals þegar þau mættu á svæðið og áttu að svara spurningum eða vinna 
verkefni tengd öllum kynnendum á svæðinu. Fyrir verkefnin fengu þau stig og unnu stigahæstu liðin 
til verðlauna í boði Atorku. Þessi nýjung gafst einstaklega vel eins og fram kemur í könnuninni, og 
höfðu nemendur gagn og gaman af enda upp til hópa mjög tæknilæs og því handgegin slíku formi.

Eins og fram kom í skýrslunni eftir Starfamessuna 2017 var ákveðið að gera sérstakt átak í að fá 
foreldra til þess að koma á messuna og kynna sér það sem messan hafði upp á að bjóða. Það skilaði 
sér að mjög litlu leyti og því var ákveðið að skoða aðra nálgun. Að þessu sinni var ákveðið að 
bjóða foreldrum og öðrum áhugasömum að koma milli kl.14 og 16 þegar nemendur væru farnir. Þessi 
opnun var auglýst vel á net- og prentmiðlum en aftur var þátttaka ekki sú sem vonast var eftir. Af 
þessum sökum voru nokkrir kynnendur farnir að taka sig saman um kl. 15 og flestir farnir kl. 16. 
Til þess að rýna aðeins í þetta var ákveðið að spyrja sérstaklega um það í könnuninni, hvort fólki 
fyndist almennt að það ætti að reyna áfram að fá foreldra og almenning til þess að mæta og þá 
hvernig.
Niðurstaðan var sú að meirihluti svarenda vildi reyna áfram að fá þennan hóp á messuna en skoða 
þarf betur hvernig að því yrði staðið.

Árangursmælikvarðar innan grunn- og framhaldsskólanna

Eitt af því sem mikil áhersla var lögð á við uppgjör Starfamessunnar 2017 var að vinna enn betur 
með grunnskólunum að undirbúningi fyrir messuna. Með það að leiðarljósi hélt verkefnastjóri 
áðurnefndan fund með náms- og starfsráðgjöfum á Suðurlandi til þess að fara yfir möguleikana á 
samvinnu og í lok fundarins tilnefndu fundarmenn tvo úr hópnum til þess að taka að sér að vera 
tengiliðir þeirra við verkefnið, þær Arnheiði Dögg Einarsdóttur náms- og starfsráðgjafa við 
skólaþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu og Klöru Öfjörð Sigfúsdóttur náms- og 
starfsráðgjafa við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þetta varð til þess að meiri vinna með 
og vitund um starfamessuna varð í flestum skólunum. Verkefnastjóri var þó áfram í sambandi við bæði 
kennara og stjórnendur skólanna varðandi allar upplýsingar um fyrirkomulag dagsins og annað sem 
máli skipti.


Í viðhorfskönnuninni sem send var á aðstandendur skólanna var svörunin minni en vonast hafði verið 
til en gefur þó nokkrar vísbendingar um afstöðu hópsins. Aðspurð um hversu miklu máli messan skipti 
fyrir sunnlenska nemendur á skalanum 1-5 þá sögðu 80% að hún skipti mjög miklu máli. Þegar sömu 
aðilar voru spurðir hvort þeir myndu taka þátt ef messan yrði haldin í fjórða skipti var svörunin 
„já“ í 100% tilvika. Þar kom líka skýrt fram að vilji væri til þess að færa messuna til móts við 
Íslandsmeistarakeppnina í iðngreinum til þess að koma í veg fyrir skörun.


Verkefnastjórn

Við upphaf verkefnisins efndi verkefnastjóri til fundar með tengiliðum frá helstu samstarfsaðilum; 
fulltrúa Atorku, fulltrúa FSu og fulltrúa grunnskólanna. Að þessu sinni var verkefnastjóri að mestu 
einn með umsjón en hafði til liðs við sig tengiliðina áðurnefndu. Þar sem gott verklag hafði verið 
mótað við síðustu starfamessu var margt einfaldara að þessu sinni en engu að síður er þetta mikið 
verkefni og vill verkefnastjóri mælast til þess að verkefnið verði mannað amk tveimur 
verkefnastjórum – hugsanlega í minna hlutfalli hvor um sig – til þess að halda utanum verkefnið 
líkt og var fyrir messuna 2017. Til marks um það  sinnti tengiliður FSu, sem jafnframt er FabLab 
stjóri Selfoss smiðjunnar, t.d. mörgum verkum umfram það sem hans hlutverk sem tengiliður ætlaðist 
til.


Kostnaður við verkefnið

Útlagður kostnaður við verkefnið að þessu sinni var um 280.000 kr auk þess sem SASS og Strætó gerðu 
með sér samning um að fjölga sætum í strætó til og frá Hvolsvelli til þess að ferja nemendur þaðan. 
Er lækkun kostnaðar við verkefnið helst til komin vegna þess að ákveðið var að sleppa því að leigja 
sýningarkerfi fyrir kynnendur þar sem ekki þótti ástæða til þess í því rými sem Hamar býður uppá.
Vinna verkefnastjóra var um 290 stundir auk þess sem framkvæmdastjóri HfSu vann um 70 stundir í 
verkefninu og er heildar launakostnaður því samtals 2.620.800kr. Áætla má að heildarvinna tengiliða 
hafi að sama skapi verið um 100 tímar.


Að lokum

Við undirbúning messunnar 2019 fengust þær upplýsingar frá umsjónarmönnum námsbrauta í iðn-, verk- 
og tæknigreinum að greina mætti töluverða aukningu á aðsókn í áðurnefndar greinar. Átti þetta 
sérstaklega við um málmiðngreinar, húsasmíði og rafgreinar en einnig grunnám bygginga- og 
mannvirkjagreina og í framhald af grunnnámi rafiðna. Gera þeir jafnframt ráð fyrir því að þessir 
nemendur skili sér áfram í sunnlensk fyrirtæki. Ekki eru tiltækar tölur fyrir haustið 2019 þar sem 
umsóknarferlið er enn í gangi en fróðlegt verður að skoða þær tölur með haustinu. Eins og áður 
sagði töldu um 70% svarenda að starfamessan hefði leitt til aukinnar aðsóknar í áðurnefndar greinar 
en um 28% sögðust ekki vissir.


Margt hefur jafnframt gerst í umhverfi greinanna sem snýr að menntamálum. Málþing um stöðu 
greinanna var haldið á vordögum en þangað mættu með erindi fulltrúar háskólanna, atvinnulífsins sem 
og fulltrúi verkgreina í FSu. Þar var skýrt frá þróun og mótun náms á fagháskólastigi sem hugsað er 
sem einskonar brú milli verknáms og háskólanáms. En því málþingi verða gerð betri skil í sérstakri 
skýrslu eins og áður hefur komið fram.


Þegar rætt er um framtíð Starfamessu Suðurlands þarf að horfa til þess hvort hægt sé á einhvern 
hátt að gera hana sjálfbæra, þ.e. ekki háða því að fá fjármagn úr sjóði Sóknaráætlunar Suðurlands 
til þess að verða haldin. Í því samhengi mætti líta til þess að búið er að móta mjög skýra 
verkáætlun sem hægt er að vinna eftir og endurtaka messu eftir messu, með þeim uppfærslum sem við 
eiga hverju sinni. Jafnframt er búið er að vinna tengiliða stefnu/skrá og er verkaskipting þannig 
skýr. Tekist hefur að ná útlögðum kostnaði niður en þar fyrir utan er kostnaðurinn fyrst og fremst 
fólgin í launakostnaði verkefnastjóra.  Vel mætti hugsa sér að sveitarfélögin sjálf taki að sér að 
ráða verkefnastjóra til þess að halda utanum verkefnið og að hvert þeirra leggi til greiðslu sem 
hlutfall af nemendafjölda síns sveitarfélags en áætla mætti að verkefnið kosti um 3-3.500.000kr í 
heildina.

Hver sem niðurstaða um framtíðina verður er víst að messan hefur náð að festa sig í sessi meðal 
bæði sunnlenskra atvinnurekenda í iðn-, verk- og tæknifyrirtækjum, og nemenda/kennara í grunn- og 
framhaldsskólum á Suðurlandi og er það mat núverandi verkefnastjóra að það væri mikil synd ef henni 
yrði ekki haldið áfram.


Ingunn Jónsdóttir
Verkefnastjóri Starfamessu Suðurlands 2107 og 2019
 

bottom of page